Ágúst 27 2009 Dagur 56 - leiðarlok

Ágúst 27 2009
Dagur 56 - leiðarlok
100% ferðarinnar næstum að baki.

Atlantshaf - Reykjanes - Reykjavík

Eftirvæntingin leynir sér ekki meðal áhafnarinnar að sjá ástvini sína eftir svo langt og strangt
ferðalag og hafa fast land undir fótum, sjálfa fósturjörðina. Þó veðurguðirnir hafi ekki alltaf
verið okkur hliðhollir þá hélt áhöfnin ávallt ró sinni og samheldnin meðal hennar einstök svo
hvergi bar skugga á. Fyrir mig var þetta lífsreynsla sem aldrei verður endurtekin og ég ekki
viljað hafa misst af. Frábærir samferðamenn, valinn maður í hverju rúmi. Kokkurin hún Beta brást
aldrei þó við oft erfiðar aðstæður væri að glíma og fær hún hæstu einkunn fyrir frábæran matseld.
Ég vil að lokum þakka samfylgdina og einstaklega góða viðkynningu þeim:

Markúsi Alexanderssyni, skipstjóra
Hjónunum: Þórarni Sigurbjörnssyni, yfirvélstjóra og
Elísabetu Rós Jóhannesdóttur, kokki
Hjálmari Halldórssyni, 1. vélstjóra
og vini mínum og frænda, Ásgeiri S. Ásgeirssyni, 1. stýrimanni

Ekki má gleyma einum hálfgerðum áhafnarmeðlimi skútunnar, þeim sem kom pistlunum á netið
hvern einasta dag ferðarinnar, Snorra Páli Jónssyni, góðum vini mínum og tölvusnillingi með meiru.
Einnig vil ég þakka öllum þeim sem fylgdust með ferðalagi okkar um hálfan hnöttinn. Lagst verður að
bryggju kl. 13:30 við Grandagarð nánar tiltekið rétt við hús Slysavarnafélags Íslands norð-austanmegin.
Kæru ástvinir við áhafnarmeðlimir sjáum ykkur á eftir (gaman að geta loksins sagt "á eftir").
Þess má til gamans geta að siglt verður inn á ytri-höfnina kl. 13:00 með drottninguna fánum prýdda.

Staður: 63°.32.895 N - 22°.36.071 A
Stefna: 343° og stuttu síðar Reykjavík
Hraði: 10,2 sm
Útihiti: 11°
Sjávarhiti: 11°
Farin vegalengd til Reykjavíkur: 10.527 sm.
Tími: kl. 06:12
Skúli Björn Árnason

Ágúst 26 2009


Dagur 55 af 56

Atlantshaf, íslenska fiskveiðilögsagan

Undirritaður varð að yfirgefa málningarpensilinn úti á dekki til að skrifa þennan næstsíðasta pistil
um ferð Helgu RE-49 yfir hálfan hnöttinn. Allar áætlanir ætla að standast um heimkomuna, úti
er ágætis veður sólskin en fremur svalt. Það er komin mikil eftirvænting hjá áhöfninni að hitta
sína nánustu og skal engan furða eftir 2ja mánaða útilegu. Reynt hefur mikið á áhöfn og fley
þennan tíma og skipst hafa á skin og skúrir eins og gengur. Þegar siglingatíminn er tekinn saman
eftir því hvernig veðrið hefur leikið við okkur þá er niðurstaðan sú að af 50 daga siglingu fóru 40 dagar í
brælu svo einkennilega sem það kann að hljóma um mitt sumar. En svona geta náttúruöflin verið
óútreiknanleg. Hins vegar má segja að á Indlandshafi eru monsúnvindarnir hvað mestir á þessum
tíma árs og vissum við það fyrir. En "stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á" eins og segir í textanum
og verða það lokaorðin í dag, síðasti pistillinn verður skrifaður snemma í fyrramálið, við biðjum að
heilsa öllum heima og hafið góðan dag.

Staður: 60°.44.977 N - 20°.20.051 A
Stefna: 343°
Hraði: 10,0 sm.
Útihiti: 12°
Sjávarhiti: 11°
Farin vegalengd: 10.284 sm.
Timi: sem fyrr kl. 12:00
SBÁ

Ágúst 25 2009


Dagur 54 af 56 (2 dagar eftir af brælutúrnum mikla)

Atlantshaf

Eftir undanfarna tveggja daga brælu í 9 vindstigum og stórsjó hefur nú brostið á með blíðu og
samkvæmt veðurspám á hún að fylgja okkur alla leið inn í Reykjavíkurhöfn. Vindurinn er nú
kominn niður í 3 vindstig og getur nú áhöfnin athafnað sig með báðar hendur frjálsar við að
"sjæna" fleyið endanlega fyrir heimkomuna. Margt fór úr skorðum síðustu tvo dagana þegar
fleyið náði nokkrum sinnum 40° halla á borð en stöðugleiki og sjóhæfni skipsins en með
afbrigðum gott. Hraðatap síðustu daga ætti að vinnast upp því ganghraði skútunnar er kominn
yfir 10 sjómílurnar, sem þýðir að gamla góða áætlunin ætti að standa þ.e. upp úr hádegi á
fimmtudag á ytrihöfninni. Áhöfnin getur nú fylgst með fréttum og veðurfergnum á RÚV sem
er góð tilbreyting og færir okkur nær okkar ástkærri fósturjörð. Eftir 2ja mánaða einangrun frá
öllum fréttaflutningi af ástandinu heima þykir áhöfninni leitt að heyra að Jesper, Kasper og
Jónatan skulu enn ganga lausir eftir að hafa rænt ævisparnaði heillrar þjóðar. Hvað sem því liður
þá höldum við okkar striki í átt til fósturjarðarinnar og erum við nú stödd vestur af Rockall og eins
og áður sagði sækist ferðin vel. Með bros á vör sendum við ykkur öllum okkar bestu kveðjur.

Staður: 57°.01.461 N - 17°.53.679 A
Stefna: 343°
Hraði: 10,3 sm.
Útihiti: 13°
Sjávarhiti: 11°
Farin vegalengd: 10.048 sm.
Tími: eins og venjulega kl. 12:00
SBÁ

Ágúst 24 2009


Dagur 53 af 56

Atlantshaf

Nú er erfitt að athafna sig fyrir framan lyklaborðið. Við erum vestur af Írlandi og verðum komin
framhjá því undir kvöld. Útifyrir eru 9 vindstig og ölduhæð ca. 7-8 metrar og þurfa menn báðar
hendur til að styðja sig um skipið. Fyrirsjáanlegt er að við töpum þeim forða sem við áttum
umfram áætlaðan komutíma, sem gæti þýtt seinkun en ekki er þó öll nótt úti. Vindurinn stendur
eiginlega beint á hlið og er veltingurinn mikill svo vægt sé til orða tekið. Pistlarnir eru skrifaðir við
skrifborð í setustofu skipsins og að því loknu þarf undirritaður að arka með tölvuna undir hendinni
upp í brú þar sem gervihnattasíminn er staðsettur og verður það þrautinni þyngri í þetta skipti og
tölvur eru dýr tæki. Bardaginn við lyklaborðið er orðinn nokkuð erfiður svo punkturinn verður settur
hér. Bestu kveðjur heim.

Staður: 59°.49.730 N - 16°.10.599 A
Stefna: 343°
Hraði: 7,0 sm.
Útihiti: 13°
Sjávarhiti: 12°
Farin vegalengd: 9846 sm.
Tími: Kl. 12:00
SBÁ

Ágúst 23 2009


Dagur 52 af 56

90% leiðarinnar að baki.

Atlantshaf

Nú erum við stödd djúpt suð-vestur af Írlandi og enn erum við yfir meðalhraða þannig að áætlaður
komutími til Reykjavíkur gæti orðið fyrr en áærlað var, eða upp úr hádegi. Þetta eru nú samt björtustu
vonir en engu að síður vel raunhæfar af þeirri ástæðu að við eigum smá aukaforða upp í meðalhraðann.
Samt skulu menn hafa það í huga að Atlantshafið er óútreiknanlegt og einhver haustlægðin gæti hæglega
sett þetta allt úr skorðum. Við erum samt bjartsýn sem fyrr og vonum það besta. Áttin er vestlæg skáhallt
á móti og töluverð hreyfing á skipinu. Unnið er að því jöfnum höndum að gera skútuna fína fyrir heimkomuna.
GSM samband verður ekkert fyrr en við nálgumst Reykjanesið svo fremi að ekki verði búið að leggja niður
endurvarpsstöðvar til sæfarenda í sparnaðarskini. Við höfum enga hugmynd um hversu langt landsmenn
eru leiddir í kreppukjaftæðinu eða hvernig ástandið almennt er í landinu okkar. Vitneskjan um það bíður
okkar við heimkomuna. Pistlahöfundur er nú farinn að sökkva sér í einhverja bannsetta svartsýni, nýbúinn
að hvetja allla til jákvæðrar hugsunar og verður hann nú að taka sér tak og vera sjálfum sér samkvæmur.
Aldrei var það hugsunin að nota ferðasögu þessa í pólitískum tilgangi og verður það að vera þannig. Pistlar
þessir voru og eru ætlaðir að snúast eingöngu um ferðalag skips og áhafnar um hálfan hnöttinn þ.e frá
Kaohsiung í Tævan til Reykjavíkur. Með tilhlökkun við heimkomuna sendir áhöfn Helgu RE-49, full bjartýni,
sínar bestu kveðjur heim.

Staður: 50°.26.640 N - 14°.37.854 A
Stefna: 343°
Hraði: 9,3 sm.
Útihiti: 15°
Sjávarhiti: 12°
Farin vegalengd: 9636 sm.
Tími: Kl. 12:00
SBÁ

Ágúst 21 2009

Dagur 50 af 56
Atlantshaf
Okkur miðar ágætlega áfram og erum stödd um 114 sm. frá Finisterrehöfða á vesturströnd Spánar.
Veður er ágætt sólskin og þokkalegur hiti.  Undirritaður minntist á spegilsléttan sjóinn í gær og allt
gott um það að segja en fljótlega fór að hvessa og upp úr kl 13:00 var komin bræla, svo snögg eru
veðraskiptin.  Hér er skipaumferð mjög lítil nánast engin (eitt skip s.l. 12 klst.).  Þó að undirritaður sé
nokkuð "sleipur" í landafræði (að hans mati) þá er hér um borð bók all merkileg og er reyndar sú mest
lesna og ber nafnið "Kortabók handa grunnskólum".  Hefur skrudda þessi gagnast undirrituðum vel
og mikið í leiðarlýsingum sínum en jafnframt gert það að verkum að breyta áðurnefndu orði "sleipur" í að
vera "þokkalegur".  Eins og áður sagði miðar okkur vel áfram og ef fram heldur sem horfir ætti áætlunin
um heimkomuna að standast þ.e. seinnipart fimmtudags 27. ágúst.  Töluverð hreyfing er á skipinu upp
og niður, en því veldur undiralda Atlantshafsins sem er bæði djúp og löng en mjúklega tekur skútan okkar 
á móti henni.  Búið er að loka "baðströndinni" sem og einnig "sundlauginni" enda að koma haust.  Við
látum þetta nægja í bili og sendum okkar bestu kveðjur heim.
Staður:  43°.07.671 N - 11°.55.619 A
Stefna:  343°
Hraði:  10,0  sm.
Útihiti:  20°
Sjávarhiti:  19°
Farin vegalengd:  9183 sm.
Tími:  Kl. 12:00
SBÁ

Ágúst 20 2009

Dagur 49 af 56
Atlantshaf
Við fjarlægjumst hægt og sígandi strandlengju Portúgals og nú er stefnan komin á Reykjanes.
Um miðjan daginn í gær eftir að hafa siglt í spegilsléttum sjó kom bræla en fór síðan að draga
úr henni upp úr kl. 19:00.  Nú er aftur komin blíða með sléttum sjó og sólskini.  Tóti yfirvélstjóri
ásamt undirrituðum munduðu málningapenslana utandyra, annar með hvítt og hinn með svart.
Hitastigið hefur heldur betur breyst innandyra sem utan og líkist það því sem við eigum að venjast.
Vifturnar í vistarverum áhafnar þagna hver af annarri og sama má segja um loftkælingarnar.
Meðlimir skútunnar eru farnir að klæðast stuttermabolum á kvöldin og nú geta allir sofið með
sæng yfir sér á næturnar.  Þetta er mikil breyting á högum áhafnarinnar og er auðvitað nauðsynleg
aðlögun fyrir komuna á klakann.  Allir eru í miklu tilhlökkunarskapi og skal engan undra "bara
vika eftir" í faðm fjölskyldu og vina.  Menn höfðu orð á því að nú fækkaði þeim skipum sem taka
framúr skútunni en þegar nær Íslandi væri komið mætti helst sjá gámaskip hlaðna búslóðum
koma á móti.  Menn skulu samt ekki láta svartsýni ná tökum á sér heldur stunda jákvæðar hugsanir. 
Svo mörg voru þau orð.  Elskurnar okkar þarna heima, hafið góðan dag og látið ykkur líða vel.
Staður:  39°.28.515 N - 10°.30.595 A
Stefna:  350°
Hraði:  9,9 sm.
Útihiti:  22°
Sjávarhiti:  20°
Farin vegalengd:  8954 sm.
Tími:  kl. 12:00 (sami og heima)
SBÁ

Ágúst 18 2009


Dagur 47 af 56

80% leiðarinnar að baki.

Óðum styttist í okkar heimahaf Atlantshafið og þar með leiðin til Reykjavíkur. Landsýn er til Spánar
en ekki til Marokkó enn sem komið er. Skútan er á bullandi lensi og miðar vel áfram. Kl: 22:00 í
kvöld ættum við að vera komin úr Miðjarðarhafinu og út í Atlantshafið. Siglt verður með ströndum
Portúgals og inn í Bicayaflóa, þaðan tekin stefnan á Rockall og síðan á Reykjanes. Mannskapurinn
um borð hefur verið að lagfæra ýmsa hluti innandyra, sem utan, pússa, mála og þess háttar. Mikil
höfrungasýning var hér á hafinu í gær og var það tilkomumikil sjón. Undirritaður ásamt yfirvélstjóra
og bryta nutum leiðsagnar Markúsar skipstjóra um stjörnur himinsins seint í gærkvöldi og var það mjög
fræðandi og skemmtilegt, karlinn leynir sko aldeilis á sér. GSM samband ætti að vera komið á seinni-
partinn í dag. Jæja elskurnar, lengra verður þetta ekki að sinni, bestu kveðjur til ykkar allra.

Staður: 36°.18.633 N - 03°.35.446 A
Stefna: 262°
Hraði: 10,4 sm.
Útihiti: 28°
Sjávarhiti: 23°
Farin vegalengd: 8494 sm.
Kl: 12:00 (sami tími og heima)
SBÁ

Ágúst 17 2009


Dagur 46 af 56

Miðjarðarhaf

Við siglum nú meðfram ströndum Alsír í átt að Gíbraltarsundi þar sem við verðum annað kvöld. Veðrið
er fallegt sólskin og sléttur sjór. Á miðnætti s.l. breyttum við klukkunni og nú í síðasta skipti þannig að
við erum komin á íslenskan tíma. Á morgun um kl. 18:00 verðum við undan ströndum Torremolinos
sem margir íslendingar kannast við úr sólarlandaferðum. (Konni minn, læt þig vita ef ég kem auga á
Roc Flamingo). Áhöfnin hefur þegar hafið niðurtalninguna þar til komið verður heim, nú 11 dagar með
deginum í dag. Allir um borð eru í góðu formi og skilum við bestu kveðjum heim.

Staður: 36°.57.767 N - 01°.26.140 A
Stefna: 262°
Hraði: 10,4 sm.
Útihiti: 28°
Sjávarhiti: 23°
Farin vegalengd: 8249 (þurftum að stöðva vél í rúman klukkutíma til að skipta um olíusíu)
Kl: 12:00 (sami og heima)
SBÁ



Ágúst 16 2009


Miðjarðarhaf

Klukkunni var seinkað um eina klst. á miðnætti s.l. og er tímamunurinn nú 1 klst. Snorri Páll Jónsson
okkar bloggmeistari í Reykjavík sendi undirrituðum tölvupóst í gær og spurði hvort hann væri hættur að
skrifa en pistlar 12. og 13. ág. hefðu ekki borist. Því er til að svara að þessir pistlar voru sendir á sama
tíma og venjulega eða upp úr kl. 12:00 eins og alla aðra daga. Gervihnattasambandið hefur hins vegar
stundum verið að stríða okkur og gallinn er sá að við getum ekki séð hvort sendingarnar frá okkur hafa
borist heim. Enginn pistill var skrifaður 14. ág. vegna þeirrar ástæðu að undirritaður var í skoðunarferð
um Vallettu og fjarri tölvunni allan liðlangan daginn. Þessir umræddu pistlar 12. og 13. voru til öryggis
endursendir í gær. Okkur miðar ágætlega áfram og höfum við nú Alsír á vinstri hönd og Korsíku á hægri.
Markús skipstjóri tilkynnti áhöfninni í morgunsárið að klukkunni yrði aftur seinkað á miðnætti um eina
klst. og þá erum við komin á sama tíma og þið elskurnar þarna á Fróni. Þetta skiptir í sjálfu sér engu máli
því næsta höfn skútunnar er Reykjavík og er heldur til þæginda fyrir áhöfnina. Alskýjað er á himni en hitinn
um 28° þegar undirritaður er að skrifa þennan pistil kl: 10:15. Hitastigið verður væntanlega annað þegar
næsti álestur fer fram rétt fyrir kl. 12:00
Að svo mæltu og eins og áður bestu kveðjur heim.

Staður: 37°.24.000 N - 06°.27.780 A
Stefna: 262°
Hraði: 10,2 sm.
Útihiti: 31°
Sjávarhiti: 23,5°
Farin vegalengd: 8007 sm.
Kl: 12:00
SBÁ


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband