Ágúst 15 2009

Dagur 44

Miðjarðarhaf

Eftir skemmtilega dvöl í Valletta fórum við frá bryggju kl. 19:15 í gærkvöldi og erum nýbúin að sigla
fram hjá eyju sem tilheyrir Ítalíu og heitir Pantelleria. Eyja þessi liggur nokkurn veginn mitt á milli
Sikileyjar og Túnis. Gott er í sjóinn og er vindurinn með okkur sem kallast á sjómannamáli að vera
á lensi. Eins og áður hefur verið getið er áætluð koma til Reykjavíkur fimmtudaginn 27. ágúst kl.18:06
seinnipart dags en auðvitað fer það eftir veðri og vindum. Það var ætlunin að koma einhverjum myndum
af ferðinni inn á bloggið en ekkert netsamband náðist á Möltu hvort sem Vodafone er um að kenna eða
ekki. Áhöfnin sendir sínar bestu kveðjur til ástvina og vina heima á Íslandi.

Staður: 37°.07.147 N - 11°.31.707 A
Stefna: 294°
Hraði: 10,3 sm.
Útihiti: 28°
Sjávarhiti: 24°
Farin vegalengd: 7757 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 13 2009


Valletta - Malta

Allar tímaáætlanir stóðust 100% og sigldum við inn í höfnina kl. 08:00 í blíðskaparveðri, logni og sól.
Engir tollverðir né starfsmenn útlendingaeftirlits komu um borð og samkvæmt umboðsmanni skipsins
getum við farið í land hvenær sem er, engin vegabréf að sýna, ökuskírteini nægir. "Gott að vera
íslendingur á Möltu". Við höfum nýlokið við að taka kostinn og þessa stundina er verið að dæla olíu
á skipið og þegar vatnið er komið fer áhöfnin á flakk um Vallettu, kærkomin stund.
Erum í banastuði og skilum kærum kveðjum heim.

Staður: Hafnarbakkinn þar sem skútan liggur:
36°.07.112 N - 14°.18.030 A
Stefna: Að skemmta sér konunglega
Hraði: Enginn = 0
Útihiti: 30°
Sjávarhiti: Hitinn í höfninni ekki mældur að sinni.
Farin vegalengd: 7591 sm.
SBÁ

Ágúst 12 2009

Dagur 41
70% leiðarinnar að baki.

Miðjarðarhaf

Áfram höldum við sömu stefnu og Malta nálgast jafnt og þétt og verðum við í hafnarmynninu
á Valletta í fyrramálið kl. 08:00. Siglum við nú sléttan sjó en í þungri undiröldu og líkist það
að vera í rússíbana, sífellt upp og niður en báturinn gerir þetta einstaklega mjúklega. Mikil
tilhlökkun er kominn í mannskapinn að stíga fast land og verður þessari fallegu eyju örugglega
gefin 12 stig af áhöfninni. Það hefur lítið til tíðinda dregið þessa síðustu daga frá því við yfirgáfum
Súez nema þá helst veðrið sem er síbreytilegt. Eins og ávallt er andinn og samheldnin á skútunni
sérstaklega góður og með þeim orðum sendum við bestu kveðjur heim.

Staður: 35°.18.652 N - 17°.51.102 A
Stefna: 287°
Hraði: 8,4 sm.
Útihiti: 31°
Sjávarhiti: 24°
Farin vegalengd: 7424 sm.
SBÁ

Ágúst 11 2009


Miðjarðarhaf

Með enga landsýn aðeins hafið blátt allan sjóndeildarhringinn mjökumst við í átt að Möltu. Langt á vinstri
hönd er Líbýa og til hægri Grikkland. Undirritaður vill beina því til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að
hætta öllu þessu kjafræði með "sjórnborð" og "bakborð" og nota þess í stað "hægri" og "vinstri" eins og
gert er í öllum mannlegum samskiptum á landi og í flugi. Stína mín, þú segir ekki við karlinn þinn þegar
þið eruð að keyra Þingvallahringinn; Jón minn þú átt næst að beygja á bakborða. Það fór að hvessa
fljótlega upp úr hádegi í gær og vitið menn komin bræla. Þessa stundina er rólegt í sjóinn, sólin brýst í
gegnum skýin öðru hverju og skútan hreyfist varla. Ef þið viljið senda okkur línu þá er póstfangið:
helgare@sjopostur.is
Senum öllum bestu kveðjur heim.

Staður: 34°.29.740 N - 21°.29.740 A
Stefna: 287°
Hraði: 8,5 sm.
Útihiti: 31°
Sjávarhiti: 24°
Farin vegalengd: 7229 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 10 2009


Miðjarðarhaf

Klukkunni var í nótt seinkað um eina klst.

Áfram siglum við Miðjarðarhafið nú með Líbýu á vinstri hönd (bakborða) og Krít á hægri (stjórnborða).
Veðrið er svipað og í gær nema meiri sól. Skútan gengur upp og niður og nálgast sjólagið við brælu.
Við erum hinsvegar orðin vel sjóuð í brælum og er þetta ekkert tiltökumál. Áhöfnin finnur sér ávallt
eitthvað til dundurs, ditta að allskonar hlutum og halda öllu í röð og reglu. Það er mikil tilhlökkun hjá
áhöfninni að stíga á fast land sem verður á fimmtudagsmorgun í Valletta á Möltu. Það fer heldur lítið
fyrir lífi í kringum bátinn hér um slóðir, sem má eflaust rekja til sjólagsins. Einn og einn fragtari þýtur
framúr okkur á 23-28 sm. ferð en við erum vön því og það ergir okkur ekkert lengur. Við höldum okkar
striki í rólegheitum (vægt til orða tekið).
Elskurnar okkar þarna heima, sendum ykkur ástkærar kveðjur héðan úr "sælunni".

Staður: 33°.29.856 N - 25°.42.250
Stefna: 287°
Hraði: 9 sm.
Útihiti: 30°
Sjávarhiti: 25°
Farin vegalengd: 7020 sm.
Kl: 12:00 (kl.10:00 heima)
SBÁ


Ágúst 9 2009

Dagur 38

Miðjarðarhaf

Kl. 20:00 í gær vorum við stödd fyrir utan Port Said í Egyptalandi og þar fóru frá borði lóðsinn, "rafvirkinn"
(næstum vissir um að hann kynni ekki einu sinni að skipta um kló) og gúmmítuðrukarlarnir, þvílíkur léttir.
Stundu síðar var Súez-skurðurinn að baki. Nú er stefnan komin á beinu brautinni til Möltu, með Egyptaland
á vinstri hönd og Tyrkland á hægri. Við gerum ráð fyrir að vera komin til Möltu á fimmtudagsmorgun
kl. 08:00 og ef allt gengur að óskum þá verðum við komin til Reykjavíkur 27. ágúst seinnipart dags.
Hitinn hefur lækkað verulega og er öllu lífvænlegra um borð í skútunni. Vindur blæs á móti (ca. 4 vindstig)
og er nokkur alda og fyrir svona einnar öldu skip þá er þetta svona upp og niður eins og gengur. Niðurtalningin
er þegar hafin og er mikil tilhlökkun í mannskapnum að hitta ástvini heima á landinu ísa. Þessu fylgir þó einnig
kvíði að koma heim í allt þjóðmálabullið. Með þeirri bjartsýni að leiðarljósi sem áhöfnin einsett sér sendum við
ykkur hugheilar kveðjur heim til fósturjarðarinnar.

Staður: 32°.17.082 N - 29°.53.545 A
Stefna: 287°
Hraði: 9,2 sm.
Útihiti: 29°
Sjávarhiti: 25°
Farin vegalengd: 6796 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 7 2009

Dagur 36
60% leiðarinnar að baki.

Súez-sund

Um kl. 16:00 í dag verðum við komin á þann stað þar sem við leggjumst við festar hjá innsiglingunni
í skurðinn sjálfan. Lagt verður af stað í fyrramálið inn í skurðinn og komum væntanlega út í Miðjarðarhafið
um miðnættið laugardag-sunnudag. Hér er mikil umferð skipa eins og búast mátti við og erum við í fyrirfram
ákveðinni lest sem fer upp skurðinn. Verulega hefur dregið úr hitanum sem betur fer áhöfninni til mikillar
ánægju. Tóti yfirvélstjóri hefur verið að dunda sér við það að spúla skipið því mikið eyðumerkurryk hefur
safnast á það. Við erum alfarið komin inn í Egyptaland og er Sínaí-eyðimörkin hægra megin við okkur. Hér
tökum við olíu og vatn. Annars allt í sómanum hér um borð og kveðjum ykkur að sinni.

Staður: 29°.11.718 N - 32°.46.079 A
Stefna: 334°
Hraði: 10,6 sm.
Útihiti: 35°
Sjávarhiti: 35°
Farin vegalengd: 6558 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 6 2009


Rauðahaf

Kári fór að æsa sig kl. 09:00 í morgun og er komin bræluskítur og allt á móti. Við höfum núna
Egyptaland á vinstri hönd og Sádi-Arabíu á hægri. Hitinn hefur heldur lækkað eða um 1° og hefði
mátt lækka um 10°. Hitinn inni í borðsalnum er hinn sami og úti eða um 36°. Það er mikið á sig
lagt en lífið er sem Brattabrekka endalaus eins og segir í textanum. Það gleymdist að geta þess
að í fyrradag náðum við þeim áfanga í fyrsta sinn í allri ferðinni að sigla fram úr skipi og jók það
stolt áhafnarinnar svo um munaði. Framundan er von um kaldari sjó og lægra hitastig og er það
mikið tilhlökkunarefni. Meira ekki að sinni og sendum við bestu kveðjur heim.

Staður: 26°.09.865 N - 35°.04.809 A
Stefna: 330°
Hraði: 9,4 sm.
Útihiti: 36°
Sjávarhiti: 35°
Farin vegalengd: 6334 sm.
Kl: 12:00 (heima: 09:00)
SBÁ

Ágúst 5 2009


Dagur 34

Rauðahaf

Siglum nú spegilsléttan sjóinn í brennandi sólinni, komin framhjá Jiddah og Mekka í Sádi-Arabíu og
nálgumst Súezflóann. Þetta miðast allt áfram þótt hægt fari. Rigning er nokkuð sem menn óska sér
á þessari stund en það fer frekar lítið fyrir henni úti í miðri eyðimörkinni. Dagurinn í gær fór í tiltektir
á dekki til að hafa allt klárt fyrir Súezskurðinn. Engu fleiru að segja frá að sinni og bestu kveðjur heim.

Staður: 22°.55.944 N - 37°.13.082
Stefna: 330°
Hraði: 9,5 sm.
Útihiti: 38°
Sjávarhiti: 35°
Farin vegalengd: 6108 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 4 2009


Rauðahaf

Heldur hefur ýft upp sjó og pusar öðru hvoru yfir stefnið. Þetta er ekkert til að kvarta yfir og
hreyfist skútan lítið. Áætlunin segir að við verðum komin til Súez á föstudagsmorgun og síðan
siglt í gegnum skurðinn á laugardag og á sunnudag komnir á EES svæðið í Miðjarðarhafi.
Undirritaður var að velta því fyrir sér hvort það sé ekki misskilningur að hafa viðkomu á Möltu í
stað þess að fara til Palermo á Sikiley, vöggu mafíunnar. Þar yrði okkur trúlega tekið opnum
örmum þar sem við sigldum inn í höfnina með íslenska fánann að húni. Fulltrúa þjóðar sem hýsir
mestu fjárglæframenn veraldarsögunnar. Ekki dónalegt eða hvað? Þetta voru nú bara vangaveltur
söguritara og reiknast á hans ábyrgð. Rauðahafið er eins blátt og önnur höf hvernig svo sem
nafngiftin er til komin, það er ekki bara heitt hérna heldur svakalega heitt. Mikil skipaumferð er
hér og eru skipin af öllum gerðum, þó mest af gámaflutningaskipum.
Lífið um borð gengur sinn vana gang allir í góðu skapi og skilum við bestu kveðjum heim.

Staður: 19°.40.371 N - 39°.15.324 A
Stefna: 330°
Hraði: 9,1 sm.
Útihiti: 38°
Sjávarhiti: 35°
Farin vegalengd: 5881 sm.
SBÁ

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband