Ágúst 23 2009


Dagur 52 af 56

90% leiðarinnar að baki.

Atlantshaf

Nú erum við stödd djúpt suð-vestur af Írlandi og enn erum við yfir meðalhraða þannig að áætlaður
komutími til Reykjavíkur gæti orðið fyrr en áærlað var, eða upp úr hádegi. Þetta eru nú samt björtustu
vonir en engu að síður vel raunhæfar af þeirri ástæðu að við eigum smá aukaforða upp í meðalhraðann.
Samt skulu menn hafa það í huga að Atlantshafið er óútreiknanlegt og einhver haustlægðin gæti hæglega
sett þetta allt úr skorðum. Við erum samt bjartsýn sem fyrr og vonum það besta. Áttin er vestlæg skáhallt
á móti og töluverð hreyfing á skipinu. Unnið er að því jöfnum höndum að gera skútuna fína fyrir heimkomuna.
GSM samband verður ekkert fyrr en við nálgumst Reykjanesið svo fremi að ekki verði búið að leggja niður
endurvarpsstöðvar til sæfarenda í sparnaðarskini. Við höfum enga hugmynd um hversu langt landsmenn
eru leiddir í kreppukjaftæðinu eða hvernig ástandið almennt er í landinu okkar. Vitneskjan um það bíður
okkar við heimkomuna. Pistlahöfundur er nú farinn að sökkva sér í einhverja bannsetta svartsýni, nýbúinn
að hvetja allla til jákvæðrar hugsunar og verður hann nú að taka sér tak og vera sjálfum sér samkvæmur.
Aldrei var það hugsunin að nota ferðasögu þessa í pólitískum tilgangi og verður það að vera þannig. Pistlar
þessir voru og eru ætlaðir að snúast eingöngu um ferðalag skips og áhafnar um hálfan hnöttinn þ.e frá
Kaohsiung í Tævan til Reykjavíkur. Með tilhlökkun við heimkomuna sendir áhöfn Helgu RE-49, full bjartýni,
sínar bestu kveðjur heim.

Staður: 50°.26.640 N - 14°.37.854 A
Stefna: 343°
Hraði: 9,3 sm.
Útihiti: 15°
Sjávarhiti: 12°
Farin vegalengd: 9636 sm.
Tími: Kl. 12:00
SBÁ

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband