Júlí 24 2009


Indlandshaf

Við siglum nú á milli Lakkadíveyja í norðri og Maldíveyja í suðri og hreyfist skútan mjúkt á undiröldunni.
Brælan hefur ekkert látið á sér kræla síðustu tvo dagana við mikinn fögnuð áhafnarinnar. Það gleymdist
að segja frá nokkru skemmtilegu atviki í síðasta pistli því þegar skipverjar litu út á dekk í gærmorgun
blasti við fiskur á dekkinu og var hann látinn þegar að var komið. Fiskur þessi hefur greinilega verið í
sjálfsmorðshugleiðingum og komið fljúgandi, vel heppnað sjálfsmorð það. Undirritaður vill taka það fram
að viðlögðum drengsskap að engin veiðarfæri af nokkru tagi voru í sjó. Þetta segir manni það eitt að
fleyið okkar mun verða fengsælt þegar fiskarnir koma sjálfviljugir um borð. Mikið er um flugfiska hérna
um slóðir og geta þeir flogið langar leiðír og nota oft öldutoppana til að fleyta sér áfram og lengra. Svona
hátt hefur undirritaður aldrei séð flugfisk fljúga og að komast um borð í skuttogara án stiga er næsta
óhugsandi. Hitinn er enn mikill og er hann mestur á milli þrjú og fjögur. Allar mælingar eru teknar á slaginu kl.
12:00 og t.d. í gær var hann 33° en um kl. 16:00 var hann kominn í 37°. Klukkunni var seinkað um 1 klst. á
miðnætti í gær og er tímamunurinn því 5 klst.
Skipverjar senda ástvinum sínum og vinum kærar kveðjur.

Staður: Hernaðarleyndarmál°
Hraði: 9,4 sm.
Stefna: Hernaðarleyndarmál°
Útihiti: 35°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 3685 sm.
Kl.: 12:00 (heima 07:00)
SBÁ

Júlí 23 2009


Kólombó -Indlandshaf

Endum var sleppt í Kólombó í gærkvöldi kl. 18:45 og tók Monsún frændi á móti okkur að vanda með brælu.
Skyndilega í morgunsárið snéri frændi frá vananum og komin er blíða um allan sjó. Við erum nú stödd um
20 sm. frá syðsta odda Indlands Comorinhöfða og siglum áleiðis í Arabíuflóa og þaðan í sjóræningjaflóann
eða Adenflóa. Að beiðni Capt. Alexanderssonar verður ekki gefin upp stefna skútunar fyrr en við nálgumst
Rauðahaf. Þetta verður trúlega í síðasta skipti sem staðarákvörðun verður gefin upp og sú næsta ekki fyrr
en við dyr Rauðahafs. Við erum nefnilega að sigla inn í hernaðarástand og þar gilda ákveðnar reglur.
Vonandi kemur þó ekki til úrgöngubanns en hver veit hvað "karlinum í brúnni" dettur í hug. Það er unun
að eiga samskipti við lyklaborðið þessa stundina, hæg undiraldan veitir áhöfninni tilfinningu fyrir því að við
erum úti á sjó og að öllum líkindum verður baðströndin opnuð.
Glöð og hress sendum við ykkur bestu kveðjur.

Staður: 4°.41.869 N - 77°.24.849 A
Hraði: 9,4 sm.
Stefna: Leyndó
Útihiti: 33°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 3296 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Júlí 22 2009

Kólombó

Allt er tilbúið í að halda ferðinni áfram og reiknum við með að geta siglt seinnipartinn. Áhöfnin fór út að
borða í gær á Galle Face Hotel en það var byggt af bretum árið 1864 stór og glæsileg bygging. Hótelið
stendur niður við ströndina og er veitingastaðurinn utandyra. Um hlaðborð var að ræða aðallega sjávarréttir
og einnig aragrúi af öðrum réttum, sem sagt stórglæsilegt. Verðið var hlægilegt kr. 1200 á mann +
drykkir (bjór 650 ml. kr. 140). Nú sem stendur er Markús skipstjóri að bíða eftir því að geta gengið frá þeim
pappírum sem þurfa til að skipið geti lagt úr höfn. Hitinn úti er nú 39°.

Njótið sumarsins heima, hættið að hugsa um Æseif og ESB. Við sendum bestu kveðjur heim.
SBÁ

Júlí 20 2009



Kólombó

Öll afgreiðsla við skipið hefur legið að mestu niðri vegna helgarinnar, en nú er kominn mánudagur og vonandi allt að
komast í fullan gang svo hægt sé að halda ferðinni áfram. Í gær (sunnudag) fór áhöfnin inn í borgina til að versla því
nokkur "moll" voru opin. Síðar um kvöldið fórum við á góðan kínverskan veitingastað og eins og áður var maturinn
og drykkir með honum ótrúlega ódýr. Þar sem við reiknuðum með að þetta yrði síðasta kvöldið okkar í Kólombó var
ákveðið að skoða næturlífið og keyrði bílstjórinn okkur á lítinn næturklúbb. Ekki var þar margt um gesti en fjöldinn allur
af ungum þjónustustúlkum sem áttu að sjá til þess allir hefðu nóg að drekka. Sem betur fer vorum við með frábærann
siðgæðisvörð í hópnum, hana Betu kokkinn okkar sem gætti þess að menn gerðust ekki of upptektarsamir. Þessar
búllur eru opnar til kl. 05:00 en siðgæðisvörðurinn sá til þess að við vorum komnir til skips upp úr miðnætti. Þessi
dagur reyndist hinn ánægjulegasti. Hitinn er enn þrúgandi og er þessa stundina 38°. Það er 7 - 8 sólahringa sigling
til næsta áfangastaðar sem er herskipaverndin í Adenflóa og ræður mestu ferðinni eins áður Monsún frændi og gerum
við ráð fyrir brælu allan þann tíma. Þess skal getið að undirritaður átti afmæli í gær og bar kokkurinn okkar fram dýrindis
afmælistertur með kaffinu af því tilefni og hafi hún innilega þökk fyrir.
Hugheilar sumarkveðjur færum við ykkur öllum heima á Fróni.
SBÁ

Júlí 21 2009



Kólombó

Við erum hér enn en nú hefur heldur orðið breyting á aðbúnaði áhafnar. Komið er í viðbót mjög öflugt
loftkælitæki. Yfirvélstjórinn hann Tóti (förum að kalla hann Goldfinger) datt það snjallræði í hug að tengja
það ásamt þeim sem fyrir voru inn á loftræstikerfi skútunnar og það virkaði. Menn sváfu eins og englar
í herbergjum sínum í nótt og nú með sæng yfir sér.
Undirritaður vill fara nokkrum orðum um hvernig þessir pistlar komast inn á bloggið. Þannig er að pistlarnir
fara héðan í tölvupósti í gegnum gervihnattasímann og á hinum endanum (Reykjavík) er góður vinur undirritaðs
Snorri Páll Jónsson (tölvugúrú) og setur hann pistlana inn á bloggið. Þær athugasemdir sem þið setjið inn
á bloggið skila sér ekki til okkar heldur til Snorra og vil ég benda ykkur á að senda okkur heldur tölvupóst á
póstfangið helgare@sjopostur.is Áhöfnin er nú að gera skipið sjóklárt að nýju til að geta boðið Monsúni frænda
byrginn. Hitinn er nú 37° og eins og undanfarið fer hann í 40° um miðjan dag. Við værum alveg til í það að
skipta við ykkur heima á hitastigi um nokkurt skeið. Sundlaugin okkar skrúfuhringurinn góði er orðinn vatnslaus
vegna uppgufunar og verður það uns við getum dælt hreinum sjó í hann, en úr höfninni sem er bölvaður drullupollur
fer ekki dropi í hana.
Látum þetta gott heita í bili. Njótið blíðunnar heima og við sendum ykkur öllum bestu kveðjur.
Kl. 12:00
SBÁ

Júlí 19 2009



Kólombó - Srí Lanka

Við erum komin á annan og betri stað í höfninni og súgurinn miklu minni. Áhöfnin fór öll í land í gær að undanskildum Markúsi
skipstjóra en hann vaktaði skipið á meðan. Við fórum á tælenskan veitingastað og kostaði máltíðin um kr. 1200 á mann með
drykkjarföngum. Stór bjór í flösku 650 ml. kostaði kr.160 ísl. Ekki er alveg ákveðið hvenær við leggjum af stað í Adenflóann en
það tekur um 7 1/2 sólahring að sigla héðan frá Kólombó í herskipaverndina á sjórænngjaslóðum. Hitinn úti er nú um 37° og
verður væntanlega kominn nálægt 40° seinnipartinn. Ef tími gefst ætla einhverjir að kíkja í verslanir í dag. Annars notar mannskapurinn
tímann til að hvílast fyrir næstu átök við Monsún frænda.

Bjart er yfir mannskapnum og bestu kveðjur heim.
SBÁ

Júlí 18 2009



Kólombó - Srí Lanka

Þá langþráðum áfanga náð. Við vorum svo heppin að geta farið beint inn í höfnina í Kólombó og losnuðum við
að liggja við festar fyrir utan. Við liggjum utaná olíuskipi því sem dældi í Helgu 60 þús. lítrum af hráolíu. Einnig
kom prammi sem dældi 10 tonnum af ferskvatni um borð. Múgur og margmenni af allskonar ríkisstarfsmönnum,
tollurum, útlendingaeftirlitsmönnum, hafnaryfirvöldum og fleirum sem ekki verður hér upp talið. Allt þetta lið gengur
meira og minna fyrir mútum og sníkjum. Fallbyssubátar frá sjóhernum vakta höfnina dag og nótt eflaust vegna hinu
nýlokna stríði við Tamíl Tígranna. Höfnin er fyrir opnu Indlandshafinu og er svo mikill súgurinn að skipið er á stöðugri
hreyfingu. Þessa stundina erum við að bíða eftir því að fá bryggjupláss og losna frá olíudallinum. Hitinn úti er 37°
heldur minni en í gær. GSM samband við fósturjörðina er með ágætum. Öllum líður vel hér um borð skilum kærum
kveðjum heim.
SBÁ

Júlí 17 2009


Indlandshaf - Srí Lanka
3/10 hlutar leiðarinnar að baki í Kólombó

Við siglum nú meðfram ströndum Srí Lanka í mun hægari sjó en áður í átt að Kólombó og komum við þangað
milli 17:00 - 18:00 allt eftir straumum sjávar. Samkvæmt einhverjum alþjóðareglum verðum við að dvelja utan
hafnar við festar í um einn sólarhring áður en við megum leggjast að bryggju. Skrítið fyrirkomulag það. Allir
eru hinsvegar fegnir að losna undan skakstrinum undanfarna sólahringa sem tekið hefur sinn toll af þreki manna.
Í Kólombó verður dælt oíu í skipið og fengnar vistir fyrir áhöfn. Undirritaður er ekki mjög fróður um Srí Lanka
annað en það að þar er ræktað te, Kasjúhnetur og gúmmí-trjárækt. Segjum þetta gott í bili og eins og venjulega
góðar kveðjur heim.

Staður: 6°.04.375 N - 80°.02.431 A
Hraði: 9,0 sm.
Stefna: 323°
Útihiti: 39°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 3143 sm.
Kl. 12:00
SBÁ

Júlí 16 2009


Bengalflói í Indlandshafi

Monsún frændi er heldur mildari við okkur nú en í gær, lyklaborðið á minni hreyfingu en bræla er það engu að síður.
Tóti (yfirvélstjórinn) hafði afskrifað sjónvarpið í setustofu áhafnar eins og getið var um í gær, en hann átti samt ákaflega
bágt með að trúa því að nýtt sjónvarp gæfi upp öndina svo fljótt. Fór hann að grúska í tækinu og með sína töfrafingur
fann hann út að tengingar höfðu víxlast bakvið tækið við uppsetningu þess. Tækið hrökk í gang og nú er hægt að taka DVD
diskana aftur upp úr kössunum. Það er létt yfir áhöfn skútunnar og tilhlökkun yfir því að koma til Srí Lanka á morgun og
losna við veltinginn um stund. Risaskip af ýmsum gerðum þjóta fram úr okkur í tíma og ótíma á 18 til 20 sm. hraða og
fyrir þeim er brælan sem sléttur sjór á meðan við skoppum á hverri öldu, en svona er nú bara lífið.
Bestu kveðjur í heimahagana.

Staður: 5°.59.521 N - 82°.56.901 A
Dýpi: 4,023 km.
Hraði: 8,2 sm.
Stefna: 266°
Útihiti: 37°
Sjávarhiti: 33,4°
Farin vegalengd: 2966 sm.
Tími: 12:00 (heima 06:00)
SBÁ


Júlí 15 2009


Bengalflói í Indlandshafi

Í bullandi brælu og ólgu sjó, talsvert meiri en í gær mjökumst við í átt að Srí Lanka. Ekki verður þó annað hægt að segja um Helguna
að hún er gott sjóskip þó stutt sé. Þráttfyrir veltinginn er þó hitinn og rakinn um borð í skútunni versti óvinur áhafanrinnar.
Sjónvarp stórt og mikið er í setustofu áhafnar og hefur verið að stríða okkur frá byrjun þangað til í fyrrakvöld þá dó það fyrir
fullt og allt. DVD spólurnar verða því áfram í kössunum. Þetta var slæmt fyrst en svo versnaði það bara. Það þýðir ekki
að sökkva sér í tóma neikvæðni því nóg höfum við af góðri tónlist, djúpum ættjarðarlögum og annarri tónlist, t.d. nú þegar
þetta er skrifað heyrist lagið Sunnan vindur með Örvari Kistjánssyni, ekki slæmt. Klukkunni var seinkað s.l. nótt um 1 klst. og
er því tímamunurinn 6 klst.

Sendum öllum heima bestu kveðjur.

Staður: 6°.07.204 N - 86°.25.386
Dýpi: 3,91 km.
Hraði: 7,5 sm.
Stefna: 270°
Útihiti: 38°
Sjávarhiti: 33,4°
Farin vegalengd: 2760 sm.
SBÁ



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband