Ágúst 3 2009

Dagur 32

Rauðahaf

Með sólina lóðrétt yfir höfðum okkar siglum við spegilsléttan sjó í Rauðahafinu. Höfrungar voru að sýna
listir sínar fyrir framan stefnið á skútunni í morgun og var það tilkomumikið sjónarspil. Kolagrillið var dregið
fram í fyrsta sinn í gær og úti á dekki var grillmeistarinn sjálfur yfirvélstjórinn Tóti og yfir kolunum bragðmikil
nautasteik. Hitinn komst í 41° kl. 16:00 í gær og er nokkuð ljóst að ekki verður hann minni í dag. Töluvert
mistur er í loftinu og er það tilkomið vegna fíns eyðimerkursalla sem er í loftinu. þessi salli sem er ljósbrúnn
hefur einnig sest á skipið. Þetta er svo sem engin furða þar sem eyðimerkur eru á báða bóga, á vinstri hönd
Súdan og á hægri Sádi-Arabía. Þó hitinn sé mikill þá er þetta hátíð frá brælunni.
Látum þetta gott heita að sinni, allir eru í fínu formi og við sendum bestu kveðjur heim.

Staður: 16°.30.270 N - 41°.09.150 A
Stefna: 330°
Hraði: 10 sm.
Útihiti: 38°
Sjávarhiti: 33,5°
Farin vegalengd: 5662 sm.
SBÁ

Ágúst 2 2009


Rauðahaf

HÁLFNUÐ - 50% leiðarinnar að baki

Nokkru áður en við kvöddum herskipaverndina kom stór þyrla frá ítalska sjóhernum og flaug í kringum
skútuna, staðnæmdist við brúarvænginn og veifuðu til okkar. Íslenski fáninn blakti á skut og voru þeir
greinilega að fletta upp í bókum hvaðan hann væri og eftir smá stund voru þeir roknir út í veður og vind.
"Mafían hvað?" Við höfum hvatt Sómalíu og sigldum í morgun inn í sundið sem skilur á milli Adenflóa
og Rauðahafs með Djíboútí á vinstri hönd og Jemen á hægri. Sund þetta er stundum kallað Sund Dauðans
af sjófarendum trúlega vegna hins mikla hita sem tekur við í Rauðahafinu. Sem stendur siglum við meðfram
ströndum Eritreu til vinstri og áfram Jemen til hægri en nálgumst Sádi-Arabíu sem tekur við af Jemen.
Hitinn var kl. 06:00 í morgun 34° og kl. 10:00 37°. Dýralíf er mikið hér á sjónum, höfrungar, fuglar og vaðandi
fiskitorfur um allt. Kokkurinn Beta er nú í þessu að reiða fram kræsingar handa sársvangri áhöfn skútunnar.
Ströndin verður væntanlega opnuð í dag og dælt í sundlaugina.
Sem fyrr sendum við ástvinum okkar og vinum bestu kveðjur.

Staður: 13°.10.045 N - 43°.08.449 A (loksins)
Stefna: 337°
Hraði: 9,8 sm.
Útihiti: 38° (skýjað)
Sjávarhiti: 33,5°
Farin vegalengd: 5421 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Ágúst 1 2009


Dagur 30

Adenflói

Með Sómalíu á vinstri hönd og Jemen á hægri siglum við inn Adenflóann í átt að Rauðahafi. Við kveðjum
væntanlega herskipaverndina um kl. 22:00 í kvöld nokkru seinna en áætlað var vegna mikils straums á móti.
Jesper, Kasper og Jónatan hafa ekkert látið á sér kræla enn sem komið er, en ekki er þó öll "von" úti !
Úti skín brennheit sólin og hitinn svo mikill að spæla má egg nánast hvar sem er á skipsstálinu. Sukkhátíðin
mikla er gengin í garð heima á Íslandi og meðan við teigum vatnið ómælt þá drekkið þið eitthvað allt annað.
Allt hefur sinn vana gang og helming leiðarinnar í augsýn kveðjum við ykkur að sinni og gangið hægt um
gleðinnar dyr. Áhöfnin á Helgu RE óskar öllum landsmönnum giftusamlegrar verslunarmannahelgar.

Staður: Eins og venjulega
Stefna: Sömuleiðis
Hraði: 8,4 sm.
Útihiti: 37°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 5190 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Júlí 31 2009


Adenflói - herskipavernd

Loksins, loksins erum við endanlega laus við Monsún frænda og siglum við nú sléttan sjó með
brennandi sólina beint yfir höfðum okkar. Undirritaður varð vitni að nokkuð óvenjulegum loftfimleikum
núna rétt áðan. Þar var á ferðinni risastór sverðfiskur sem hreinsaði sig nokkrum sinnum upp úr sjónum
rétt við skipið, en eins og í flestum tilfellum þegar eitthvað óvenjulegt er að gerast er myndavélin víðs fjarri.
Okkar er greinilega vel gætt því stórt flutningaskip sigldi óvenjulega nálægt okkur í gær og var það
vinsamlegast beðið að færa sig frá okkur um 1 og 1/2 sjómílu því það skyggði á okkur. Sem sagt allt
undir "control". Aukavakt er á skútunni á næturnar þann tíma sem verndin stendur yfir. Íslenski fáninn
var dreginn að húni nú í morgunsárið og ef til vill er það besta vörnin gegn sjóræningjum og getur hver og
einn túlkað það á sinn hátt !
Hress og kát sendum við ykkur öllum heima bestu kveðjur.

Staður: Bannað að gefa upp
Stefna: Sömuleiðis
Hraði: 9,7 sm.
Útihiti: 37°
Sjávarhiti 33°
Farin vegalengd: 4984 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Júlí 30 2009

Dagur 28

Adenflói

Þá erum við komin inn á hættusvæðið og eigum við að vera mætt í herskipaverndina kl. 18:00. Veður hefur
heldur gengið niður en bræla engu að síður, en vonandi erum við að komast út úr henni. Það verður tilbreyting
að komast út undir bert loft á ný og njóta sólarinnar. Herskipaverndin er 500 sm. löng eða rúmlega 2ja daga
sigling ef allt gengur að óskum og verðum við þá komin í mynni Rauðahafs.

Undirritaður er löngu búinn að ákveða það að misnota þennan pistil í dag 30. júlí í eigin þágu. Tvær ungar konur
nátengdar undirrituðum eiga afmæli í dag og ber fyrst að nefna mína heittelskuðu eiginkonu Maríu sem er 55 ára
og elskulegri dóttur minni Gerði Sif sem er 22ja ára. Megi þær báðar eiga frábæran dag og til hamingju með daginn.

Að svo mæltu viljum við áhafnarmeðlimir Helgu RE skila bestu kveðjum heim til fósturjarðarinnar.

Staður: Hernaðarleyndarmál°
Stefna: Sömuleiðis°
Hraði: 8,3 sm.
Útihiti: 32°
Sjávarhiti: 32,5°
Farin vegalengd: 4751 sm.
Kl: 12:00 (heima kl: 09:00
SBÁ

Júlí 29 2009

Dagur 27

Indlandshaf, Arabíuflói í Adenflóa

Hann Monsún frændi er ákveðinn í að gefast ekki upp á okkur fyrr en í fulla hnefana, enn er bræla og
haugasjór, svo mikill að drottningin okkar lagðist 40° í stjór á einum skaflinum. Skipverjar er orðnir hálf
pirraðir á þessari brælu sem vonandi fer að taka enda. Það er alveg á mörkunum að við náum á réttum
tíma í herskipaverndina sökum mikils straums og vinds. Það eina sem gildir í svona ástandi er að
glata ekki húmornum og er hann enn á sínun stað.
Sendum ástvinum og vinum bestu kveðjur héðan úr brælunni.

Staður: Ekki gefinn upp
Stefna: Sömuleiðis
Hraði: 6,9 sm. s.l. sólarhring.
Útihiti: 30°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 4552 sm.
Kl: 12:00
SBÁ

Júlí 27 2009


Indlandshaf

Bræla og aftur bræla, helmingi meiri en í gær, 8-9 vindstig og lyklaborðið virkilega fjandsamlegt. Við
eigum eftir u.þ.b 3ja daga siglingu í herskipaverndina á Adinflóa ef veðrið versnar ekki mikið meira.
Sólin kemur öðru hverju út úr skýjaþykkninu og hvítfyssandi öldurnar sem umkringja skipið minnir mann
margt á dali og fjöll. Undirritaður er alveg við það að missa þolinmæðina á þessu pikki. Það er hin mesta
þraut að hitta á stafina svo hér skal látið staðar numið að sinni.

Kærar kveðjur til ykkar allra heima.

Staður: Hernaðarleyndarmál°
Hraði: 8 sm.
Stefna: Hernaðarleyndarmál°
Útihiti: 33°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 4185 sm.
SBÁ

Júlí 28 2009


Indlandshaf - Adenflói

4/10 (40%) leiðarinnar að baki
Klukkunni seinkað um 1 klst. s.l. nótt og er nú 3ja tíma munur.

Monsún frændi er gjörsamlega búinn að sleppa sér, stærri öldur og dýpri dalir sem sagt haugabræla.
Drottningin okkar hún Helga lætur sem ekkert sé og líður í gegnum öldufaldanna stoltið uppmálað.
Áætlað er að vera komin í herskipaverndina á fyrirfram ákveðnum stað og tíma kl. 18:00 n.k. fimmtudag og er
ekkert sem bendir til annars en það takist. Sá áhafnarmeðlimur sem verst fer út úr blælunni er kokkurinn
okkar Beta og á hún ekki sjö dagana sæla þar sem skútan gengur sífellt upp og niður og borð í borð allt að 35°.
Undirritaður hefur ákveðið að láta af öllu væli varðandi óstýrilátt lyklaborðið og bjóða því byrginn hvað sem á dynur.
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og með jákvæðu hugarfari sendum við forseta vorum og ríkisstjórn, ásamt
landsmönnum öllum bestu kveðjur.

Staður: Góður
Hraði: 7,9 sm.
Stefna: Þokkaleg
Útihiti: 33°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 4386 sm.
Meðalhraði frá Kólombó: 8,9 sm.
Meðalhraði frá Tævan: 9,3 sm.
Kl: 12:00 (heima 09:00)
SBÁ

Júlí 26 2009



Indlandshaf

Monsún frændi var aldeilis ekki búinn að yfirgefa skútuna og siglum við nú í skítabrælu. Pistillinn
verður fremur stuttur að þessu sinni. Vert er þó að geta þess að "Kólombóflensan" herjaði s.l. nótt
á tvo áhafnarmeðlimi skútunnar, sjálfan skipstjórann og undirritaðan. "Kólomóflensan" samanstendur
af uppgangi annarsvegar og niðurgangi hinsvegar og verður að segjast eins og er að þetta er déskotans
viðbjóður. Klukkunni var aftur seinkað um 1 klst. s.l. nótt og er tímamunurinn því 4 klst.
Við byðjum að heilsa heim eins og venja er.

Staður: Ekki uppgefinn°
Hraði: 8,9 sm.
Stefna: Ekki uppgefinn°
Útihiti: 33°
Sjávarhiti: 33°
Farin vegalengd: 3787 sm.
Kl: 12:00 (heima: 08:00)
SBÁ

Júlí 25 2009

Dagur 23

Indlandshaf í Adenflóa

Skyldi Monsún frændi vera búinn að yfirgefa okkur. Gott er í sjóinn, þó nokkur undiralda og skútan
líður mjúklega yfir hafflötinn. Úti er sólskin og hiti og er hvergi skip að sjá og það er eins og við séum
ein í heiminum. Okkur miðar ágætlega áfram og ef að líkum lætur standast allar áætlanir. Sem stendur
bólar lítið á lífi kringum bátinn enda er hér allnokkurt dýpi og við fjarri ströndum, sem sagt úti á ballarhafi.
Dagurinn í dag ætlar að vera svipaður gærdeginum og góður sóldýrkendum. Við látum tónlistina berast
um skipið og ber þar margt á góma.
Andinn er frábær um borð og eins og venjulega sendum við bestu kveðjur heim á klakann.

Staður: Ekki gefin upp°
Hraði: 9,5 sm.
Stefna: Ekki gefin upp°
Útihiti: 34°
Sjávarhiti: 33°
Dýpi: 4,479 km.
Farin vegalengd: 3557 sm.
Kl. 12:00
SBÁ

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband